top of page
licensed-image.jpeg

Peter F. Drucker

Peter F. Drucker (1909-2005) var frumkvöðull á sviði stjórnunarfræða og hafa verk hans verið nýtt sem kennslurit í háskólum, fyrirtækjum og stofnunum um heim allan. Eftir Drucker liggja samtals 39 bækur og yfir hundrað greinar sem lögðu grunninn að því sem á okkar dögum kallast stjórnunarfræði.

  Um Drucker

  Peter F. Drucker fæddist í Austurríki árið 1909, lærði lögfræði í Þýskalandi og starfaði samhliða námi sem ritstjóri eins stærsta dagblaðs Frankfurt borgar. Árið 1935, þremur árum eftir að hann lauk doktorsprófi í lögfræði flutti hann til Englands eftir að ritgerðir hans voru bannaðar og brenndar af nasistum. Stuttu eftir það flutti hann til Bandaríkjanna þar sem hann starfaði sem fréttaritari fyrir fjölda breskra dagblaða ásamt því að sinna stundakennslu í hagfræði. Eftir að Drucker bauðst ráðgjafaverkefni hjá General Motors, seint á fimmta áratug síðustu aldar, lagði hann grunninn að fyrstu bók sinni, The Concept of the Corporation sem kom út árið 1947. 

   

  Árið 1950 varð hann prófessor í stjórnun við New York háskóla og hóf samhliða því ráðgjafaferil sinn að fullu. Árið 1954 gaf hann út bókina The Practice of Management sem er álitin vera grundvallarrit stjórnunarfræðanna. Árið 1959 var Drucker fyrstur til að kynna til sögunnar hugtakið „þekkingarstarf“ sem átti eftir að verða grunnstoð þess hagkerfis sem við þekkjum í dag. Árið 1966 gaf hann út bókina The Effective Executive eða Árangursríka stjórnandann sem hefur síðan þá verið hans vinsælasta bók. 

   

  Þegar Drucker var spurður eitt sinn á gamals aldri hvaða bók hann væri stoltastur af svaraði hann, „næstu bók!“. Þetta viðhorf speglaðist vel í því hversu afkastamikill hann var en eftir Drucker liggja samtals 39 bækur og yfir hundrað greinar þar sem hann skrifaði aðallega um stjórnun og lagði með þeim grunninn að því sem við þekkjum sem stjórnunarfræði í dag.  Hann lést árið 2005, næstum 96 ára gamall, og hélt áfram að kenna, skrifa og veita fyrirtækjum ráðgjöf langt yfir níræðisaldurinn. 

   

  Þegar hann var spurður að því hvert hans mikilvægasta framlag var yfir starfsævi sína svaraði hann: „Ég áttaði mig snemma á því að stjórnun var orðið grundvallartæki í því samfélagi skipulagsheilda sem við búum við í dag. Ég sá að stjórnun snýst ekki um aðeins um „rekstur“ heldur er stjórnun lykilatriði í öllum skipulagsheildum nútímasamfélags. Ég gerði stjórnunarfræði að fagi út af fyrir sig.“ 

   

  „Það er trú mín á fjölbreytileikann og fjölhyggju og sérstöðu allra einstaklinga sem liggur til grundvallar allra þeirra bóka sem ég hef gefið út,“ sagði Drucker enn fremur þegar hann leit yfir feril sinn. Stjórnun, að mati Drucker, snerist ekki um að skipa öðru fólki fyrir, hún snerist ekki aðeins um að reka fyrirtæki heldur snerist hún um að leiða fólk saman til góðra verka. Árangur stjórnenda var því ekki aðeins markmið fyrir framþróun einstaklinga heldur sá Drucker hann sem hreyfiafl sem væri öllu samfélaginu til góðs. Fyrir Drucker snerist fyrirtækjarekstur ekki um hagnað - tekjur væru einfaldlega mælikvarði á árangur. Fyrir honum snerist rekstur um árangurshæfni skipulagsheilda og áhrif þeirra á samfélagið. Þetta viðhorf hans endurspeglast greinilega í lokaorðum bókarinnar um Árangursríka stjórnandann:

   

  „Árangur stjórnenda getur gert þessu samfélagi kleift að koma saman þessum þörfum: þörfum skipulagsheildar fyrir að ná frá einstaklingnum framlaginu sem hún þarfnast og þörf einstaklingsins fyrir að skipulagsheildin þjóni honum sem tæki til að ná fram eigin afrekum. Við verðum að læra að verða árangursrík.“ 

  Aðrar bækur eftir Peter F. Drucker

  1939: The End of Economic Man 
  1942: The Future of Industrial Man 
  1946: Concept of the Corporation 
  1950: The New Society 
  1954: The Practice of Management 
  1957: America's Next Twenty Years 
  1959: The Landmarks of Tomorrow 
  1964: Managing for Results 
  1967: The Effective Executive 
  1969: The Age of Discontinuity 
  1970: Technology, Management and Society 
  1971: The New Markets and Other Essays 
  1971: Men, Ideas and Politics 
  1971: Drucker on Management
  1973: Management: Tasks, Responsibilities, Practices' 
  1976: The Unseen Revolution: How Pension Fund Socialism Came to America 
  1977: People and Performance: The Best of Peter Drucker on Management 
  1978: Adventures of a Bystander 
  1980: Managing in Turbulent Times 
  1981: Toward the next economics, and other essays 

  1982: The Changing World of Executive 
  1982: The Last of All Possible Worlds 
  1984: The Temptation to Do Good 
  1985: Innovation and Entrepreneurship 
  1986: The Frontiers of Management: Where Tomorrow's Decisions are Being Shaped Today 
  1989: The New Realities: in Government and Politics, in Economics and Business, in Society and World View 
  1990: Managing the Nonprofit Organization: Practices and Principles 
  1992: Managing for the Future 
  1993: The Ecological Vision 
  1993: Post-Capitalist Society 
  1995: Managing in a Time of Great Change 
  1997: Drucker on Asia: A Dialogue between Peter Drucker and Isao Nakauchi 
  1998: Peter Drucker on the Profession of Management 
  1999: Management Challenges for 21st Century 
  1999: Managing Oneself 
  2001: The Essential Drucker 
  2002: Managing in the Next Society 
  2002: A Functioning Society 
  2004: The Daily Drucker 

  bottom of page