top of page

Árangursríki stjórnandinnFyrir nokkrum árum síðan las ég bók sem átti eftir að breyta því hvernig ég starfa.


Við lærum ýmislegt gagnlegt í skóla en svo virðist sem skólinn búi okkur ekki að fullu undir þekkingarstörf sem við endum flest á að vinna við. Í viðskiptafræði lærum við t.d. um ávöxtunarkröfu og SVÓT greiningar en lærum lítið sem ekkert um hvernig stýra eigi árangursríkum fundum, skipuleggja tíma okkar eða að taka árangursríkar ákvarðanir. Þetta síðarnefnda er einmitt það sem við eyðum megninu af tíma okkar í vinnunni og neyðumst flest til að læra upp á eigin spýtur.


Það var ekki fyrr en ég las umrædda bók, The Effective Executive, eftir Peter Drucker sem ég fékk réttu tólin í hendurnar til að skila árangri í starfi. Af þeim fjölmörgu bókum sem ég hef lesið um viðskipti og stjórnun er þetta bókin sem ég hef oftast litið til eftir raunverulega gagnlegum ráðum. Ég er ekki einn um þessa skoðun. Það er ástæða fyrir því að Jeff Bezos, stofnandi Amazon, gerði bókina að skyldulesningu hjá stjórnendateymi fyrirtækisins. Tim Ferriss, hlaðvarpsstjórnandi og höfundur bókarinnar 4 Hour Workweek, hefur einnig mært The Effective Executive og sagt hana vera „verðmætari en 99% svokallaðra bóka um tímastjórnun þarna úti“. Í viðtölum við Ferris nefna Drew Houston, stofnandi Dropbox, og Matt Mullenweg, stofnandi Wordpress, bókina sem skyldulesningu fyrir hvern þann sem vill læra að ná árangri í viðskiptalífinu. Frá því að hún kom fyrst út árið 1967 hefur hún verið nýtt sem leiðarvísir fjölmargra stjórenda um heim allan og hefur hún fyllilega staðist tímans tönn til dagsins í dag.


Síðastliðið haust tók ég ákvörðun um að þýða The Effective Excutive yfir á íslensku og 23. júní næstkomandi kemur bókin út í minni þýðingu í samstarfi við Sölku bókaútgáfu. Bókin heitir á íslensku Árangursríki stjórnandinn og ég er fullviss um að hún eigi eftir að reynast íslenskum stjórnendum sem verðmætur leiðarvísir í lífi og starfi. Árangursríki stjórnandinn er fyrir alla sem bera ábyrgð í starfi og taka ákvarðanir sem hafa raunveruleg áhrif á þær skipulagsheildir sem þeir starfa fyrir. Bókin nýtist því vel hvort sem þú starfir hjá fyrirtæki, skóla, sjúkrahúsi eða ríkisstofnun, sem sérfræðingur, verkefnastjóri, deildarstjóri eða forstjóri. Allir geta lært að verða árangursríkir stjórnendur og allir þurfa að læra að verða árangursríkir stjórnendur, líkt og Drucker orðar það sjálfur.


-Kári Finnsson

7 views0 comments
bottom of page